ARION: Jákvæð afkomuviðvörun

Útlit fyrir virkilega sterkt uppgjör

Arion banki sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun fyrr í dag. Samkvæmt tilkynningunni verður hagnaður á öðrum ársfjórðungi um 10ma.kr. og um 45% yfir meðaltali greiningaraðila - virkilega sterkt uppgjör.

AKKUR gaf út afkomuspár fyrir þau félög sem fylgst er með um helgina til áskrifenda, hér að neðan má sjá afkomuspá AKKUR fyrir Arion banka og samanburð við meðaltal greiningaraðila.

Fram kemur í afkomuviðvörun að kjarnatekjur, þ.e.a.s. hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknanatekjur og hreinar tekjur af tryggingastarfsemi, séu u.þ.b. 10% hærri en spár greiningaraðila og má því gera ráð fyrir að þær séu um 19,7ma.kr.

Hér að neðan má sjá sögulega þróun á kjarnatekjum en síðasti ársfjórðungur var um 14% yfir besta fjórðungi hingað til og hlaupandi 12 mánaða takturinn hækkaði um 4,9% milli fjórðunga.

AKKUR horfir fyrst og fremst á “undirliggjandi rekstur” bankans eða þá þætti sem bankinn sjálfur getur haft stjórn á. Það þýðir að AKKUR horfir mest á kjarnatekjur ásamt rekstrarkostnað en skv. tilkynningu var rekstrarkostnaður einnig undir spám.

Það verður því að segjast að afkoma fjórðungsins er verulega jákvæð og til þess fallin að hækka afkomuspá ársins verulega og fyrsta mat er að afkomuspár fyrir 2026 og 2027 séu líklega vanmetnar.

Virðisrýrnun og aðrar eignir

Það kemur einnig fram í tilkynningunni að virðisbreyting af fjárfestingareignum (Blikastaðaland o.fl.) hafi verið yfir spám og að virðisrýrnun hafi verið undir væntingum.

Eins og áður hefur komið fram reynir AKKUR ekki sérstaklega að spá fyrir um hvenær virðisbreyting fjárfestingareigna muni eiga sér stað í framtíðinni í verðmati. Þ.a.l. eru engar virðisbreytingar inni í afkomuspám næstu ára hér að ofan en þess í stað voru þær eignir sérstaklega metnar í verðmati á bankanum.

Sömuleiðis reynir AKKUR ekki að spá fyrir um hvernig virðisrýrnun muni sveiflast milli fjórðunga heldur gert ráð fyrir því að virðisrýnun verði 20-25bps af lánabók í gegnum hagsveifluna og deilist jafn yfir tímabilið.

AKKUR hefur hins vegar bent á að uppsöfnuð virðisrýrnun(vænt útlánatap) er tiltölulega há í tilfelli Arion banka, samanborið við Íslandsbanka og Landsbankann. Myndin hér að neðan sýnir hvernig þróunin hefur á væntu útlánatapi sem hlutfalli af brúttó útlánum, þetta er vissulega ekki fullkominn mælikvarði og lánabækur bankanna ekki eins. Hins vegar hefur þróunin undanfarið verið á þá leið að Íslandsbanki og Landsbankinn hafa dregið úr væntu útlánatapi á meðan það hefur verið óbreytt hjá Arion banka í töluverðan tíma. Það hefur því aðeins verið tímaspursmál, að mati AKKUR, hvenær Arion banki myndi byrja að færa hluta af virðisrýrnun til baka sem virðist hafa gerst á síðasta fjórðungi.

Til þess að setja tölurnar í samhengi þá gæti Arion banki fært 1,5-2,0ma.kr. af virðisrýrnun til baka til þess að vera með sama hlutfall og Íslandsbanki og Landsbankinn.