Hvernig metum við eilífðarvöxt?

Fyrsti pistill í ritröð um gerð verðmats

Á næstu misserum verður birt ritröð sem fer yfir gerð verðmats, hugsunin er að það verði eitthvað sem gagnist bæði þeim sem eru lengra komin og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjárfestingum. Hér verður farið stuttlega yfir eina af lykilforsendum þegar verið er að gera sjóðstreymisverðmat á fyrirtækjum sem er eilífðarvöxtur (e. terminal growth rate).

Í hefðbundnu sjóðstreymismati er stillt upp sjóðstreymi fyrirtækis/verkefnis yfir ákveðið spátímabil en til þess að meta virði sjóðstreymis eftir spátímabilið er reiknað út eilífðarvirði (e. terminal value). Til eru nokkrar aðferðir við að reikna út eilífðarvirði en í flestum þeirra þurfum við að mynda okkur skoðun á hversu mikill vöxtur verði inn í eilífðina að spátímabilinu loknu.

Í sumum tilfellum getur verið að verkefni séu aðeins með fyrirfram ákveðin líftíma og þá er sjóðstreymi aðeins metið yfir þann líftíma en ekki til eilífðar. Hins vegar þegar verið er að verðmeta fyrirtæki er í langflestum tilfellum eðlilegt að gera ráð fyrir að sjóðstreymi sé til eilífðar.

Mismunandi aðferðir við mat á eilífðarvexti

Það er engin ein rétt leið til að meta eilífðarvöxt en hér að neðan verður farið yfir nokkrar leiðir til að leggja mat á hver eilífðarvöxtur gæti verið. Eilífðarvöxtur getur verið misjafn m.a. eftir því um hverskonar fyrirtæki um er að ræða og í hvaða landi reksturinn á sér stað.

Hagvöxtur

Ein algeng aðferð til að leggja mat á eilífðarvöxt er að tengja hann við hagvöxt. Frá 1945 hefur hagvöxtur verið 3,7% á ári, ef við horfum á hlaupandi 10 ára tímabil hefur hagvöxtur yfir 10 ára tímabil aldrei farið undir 1% síðan 1945. Hafa þarf í huga að hagvöxturinn er á föstu verðlagi.

Söguleg gögn

Önnur algeng aðferð við að leggja mat á eilífðarvöxt er að horfa á sögulegan vöxt hjá viðkomandi fyrirtæki sem verið er að verðmeta og nota það sem grundvöll. Gallinn við þessa aðferð er að það geta verið mun meiri sveiflur í vexti hjá einu fyrirtæki samanborið við hagkerfið í heild þegar horft er á hagvöxt. Kosturinn er að vöxtur er mismikill hjá fyrirtækjum og ekki víst að hagvöxtur endurspegli vöxt hjá einstaka félögum.

Fólksfjölgun

Önnur aðferð sem hægt er að styðjast við er að horfa á vænta fólksfjölgun. Samkvæmt nýjustu mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir að Íslendingum fjölgi um 0,9% á ári næstu 50 árin. Ofan á þessa fólksfjölgun má svo gera ráð fyrir að það verði einhver verðbólga á sama tíma. Ef við styðjumst við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands má vænta þess að nafnvöxtur útfrá þessum mælikvarða verði tæplega 3,5%.

Mynd frá Hagstofu Íslands

Sýnidæmi - Verðmat Akkurs á Arion banka

Í frumskýrslu Akkurs á Arion banka (sem má nálgast hér) var gert ráð fyrir 3,5% eilífðarvexti í grunnsviðsmynd. Ef við skoðum hver vöxtur hagnaðar bankans hefur verið þá jókst hagnaður af áframhaldandi starfsemi um 9,2% á ári frá 2017-2023. Neðangreind næmnitafla var í skýrslunni og sýnir hver áhrifin af breyttum forsendum um eilífðarvöxt eru auk áhrifa af breytingu á ávöxtunarkröfu.

Breyting á eilífðarvexti um 1%-stig hefur áhrif til breytinga á niðurstöðu verðmats um u.þ.b. 10%. Það skiptir því máli að mynda sér skoðun á því hver er raunhæfur eilífðarvöxtur.

Niðurstaða

Það eru margar leiðir til að leggja mat á eilífðarvöxt og engin ein rétt leið. Það mikilvægasta að mati Akkurs er að hægt sé að rökstyðja niðurstöðuna og betra er að vanmeta eilífðarvöxt en ofmeta.

Eins og dæmið hér að ofan sýnir væri hægt að rökstyðja mun meiri eilífðarvöxt í verðmati á Arion banka ef bara er horft á sögulegar tölur bankans og/eða sögulegan hagvöxt en það væri óskynsamlegt að gera ráð fyrir svo miklum vexti að eilífu.