Innlán heimila og fjárfesting í sjóðum

Nýjar tölur frá Seðlabankanum

Seðlabanki Íslands birti nýjustu tölur fyrir verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði í morgun sem ná yfir nóvember síðastliðinn. Í nóvember var nettó innflæði í verðbréfa- og fjárfestingarsjóði upp á rúmlega 6ma.kr. og þar af var mesta innflæðið í peningamarkaðssjóði eða 3,4ma.kr.

Nettó innflæði í hlutabréfasjóði nam rúmlega 600m.kr. sem gerði það að verkum að í fyrsta sinn frá innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 hefur núna verið nettó innflæði í hlutabréfasjóði þrjá mánuði í röð. Einnig voru ákveðin tímamót því nú er nettó kaup/sala í hlutabréfasjóðum síðustu 12 mánuði jákvæð í fyrsta sinn síðan í september 2022.

Í desember voru birtar tölur fyrir bankakerfið og það er áhugavert að fylgjast með þróun innlána heimilanna. Innlán heimila jukust um 41ma.kr. í nóvember sem er fjórða mesta aukning í einum mánuði í sögunni. Mesta aukningin var í maí síðastliðnum en hafa verður í huga að kaup á húsnæði Grindvíkinga hafði líklega töluverð áhrif á tölurnar þann mánuðinn.

Innlán heimilanna námu í lok nóvember tæplega 1.700mö.kr. eða um 55% markaðsvirði allra félaganna í kauphöllinni (án JBT).

Áhugavert er að setja innlán heimilanna í samhengi við eign heimilanna í sjóðum sem er hægt að lesa út úr tölum Seðlabankans. Þar má sjá að eign heimilanna í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er í algjöru sögulegu lágmarki eins langt aftur tölurnar ná.

Ef við horfum bara á eign heimilanna í hlutabréfasjóðum er hlutfallið ekki alveg jafn lágt sögulega en engu að síður lágt.