- AKKUR - Greining og ráðgjöf
- Posts
- Uppgjör Arion banka - Umfram væntingar
Uppgjör Arion banka - Umfram væntingar
AKKUR bregst við 3ja mánaða uppgjöri Arion banka
VIÐBRÖGÐIN VORU SEND TIL ÁSKRIFENDA Í GÆRKVÖLDI OG ERU BIRT OPINBERLEGA NÚNA - NEÐANGREINT MIÐAST VIÐ ÞÆR UPPLÝSINGAR SEM LÁGU FYRIR KVÖLDIÐ 7. MAÍ 2025.
Jákvætt:
| Neikvætt:
|
Arion banki birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung 2025 fyrr í dag. Þrátt fyrir að niðurstaðan (hagnaður) sé nálægt spá AKKUR er uppgjörið mjög sterkt að mati AKKUR og góður gangur í undirliggjandi rekstri.
Hér að neðan má sjá samantekt á uppgjöri bankans borið saman við spá AKKUR og meðaltal greiningaraðila.

Eins og sést á þessari samantekt eru hreinar vaxtatekjur og hreinar tekjur af tryggingum umfram væntingar AKKUR auk þess sem rekstrarkostnaður er lægri. Það má því segja að “kjarnarekstur” bankans sé að skila rúmlega 900m.kr. afkomu umfram væntingar AKKUR.
Hreinar fjármunatekjur eru vissulega undir væntingum, sem voru lágar, en AKKUR kýs að leggja ekki mikla áherslu á þennan sveiflukennda lið þar sem til lengri tíma ættu þessar sveiflur að jafnast út og skila jákvæðri afkomu.
Hrein virðisbreyting var einnig lægri en væntingar AKKUR en líkt og áður hefur komið fram er ekki reynt að spá sérstaklega fyrir um sveiflur hér og gert ráð fyrir að virðisrýrnun sé u.þ.b. 0,25% út spátímabilið á ári. Einnig er vakin athygli á því, aftur, að AKKUR telur að bankinn eigi inni bakfærslu á virðisrýrnun undanfarinna ára en lætur það eiga sig að reyna að spá fyrir um hvenær og í hversu miklu magni það gerist.
Jákvæðir puntkar
Hreinar vaxtatekjur eru töluvert umfram væntingar og vaxtamunur hærri. Hreinar vaxtatekjur á einum ársfjórðungi hafa aldrei verið hærri. Markaðurinn hefur haft áhyggjur af vaxtamun og að hann muni minnka með minni verðbólgu en síðasti ársfjórðungur var mjög sterkur. Bankinn stendur við sitt markmið að vaxtamunur verði í kringum 3% næstu misseri.
Tryggingarekstur er áfram sterkur og jákvæð þróun tjóna- og samsetts hlutfalls heldur áfram. Árangur fjórðungsins var sá næst besti á fyrsta ársfjórðungi hjá Verði. Samsett hlutfall lækkaði um 4,2%-stig milli ára.
Við fyrstu sýn er rekstrarkostnaður tæplega 400m.kr. undir væntingum AKKUR og eykst aðeins um 0,7% á milli ára. Kostnaðarhlutfall (af kjarnatekjum) lækkar um 5,8%-stig milli ára.
Hins vegar er stór hluti af ástæðunni, eða 319m.kr., bakfærsla á áður gjaldfærðum árangurstengdum greiðslum sem bankinn mun væntanlega skýra betur á kynningarfundi sínum. Ef við “leiðréttum” fyrir bakfærslu eykst kostnaður um 5,6% milli ára og er ansi nálægt væntingum AKKUR (munar þá 53m.kr.).
Engu að síður er þetta jákvætt þar sem þetta þýðir þá að kostnaður undanfarinna ára hefur verið ofmetinn sem bakfærslunni nemur.
Verðmæti Landey er fært upp um tæplega 3,5ma.kr. þar sem deiliskipulag fyrir Arnarland var samþykkt í bæjarráði Garðabæjar. Þar sem bankinn á aðeins helminginn í því verkefni eru nettó áhrifin (eftir skatta) aðeins um 1,1ma.kr. AKKUR gerir ráð fyrir því að hluti bankans í Arnarlandi fari í söluferli á næstu misserum þegar skipulag hefur verið endanlega samþykkt.
Neikvæðir puntkar
Virkt skatthlutfall var mjög hátt á fjórðungnum og umfram háar væntingar AKKUR. Óhagstæð samsetning hagnaðar (skattalega) gerir það að verkum að skatthlutfall verður mjög hátt. AKKUR kýs hins vegar að dvelja ekki of mikið við þetta þar sem líkt og með fjármunatekjur jafnast þetta út yfir lengri tíma.
Fjármunatekjur mjög slappar og undir þegar lágum væntingum AKKUR. Með verri fjórðungum (#4) síðastliðin 10 ár. Hins vegar kýs AKKUR að horfa ekki of mikið á sveiflur milli fjórðunga hér þar sem þetta jafnast út yfir lengri tíma.
Ekkert minnst á frekari endurkaup umfram núverandi heimild en í upphafi þessarar viku hafði bankinn nýtt tæplega helming af núverandi 3ma.kr. heimild til endurkaupa. Það styttist í að bankinn verði kominn nálægt eiginfjármarkmiðum sínum sem þýðir að þegar það gerist mun hann skila hlutfallslega minna af fjármunum til hluthafa en hann hefur gert undanfarin ár.
Verðlagning
Miðað við dagslokagengi í dag er markaðsvirði bankans 217ma. að teknu tilliti til eigin bréfa sem þýðir að hann er metinn á 8,9x hagnað síðustu tólf mánaða eða 8,8x hagnað ársins 2025 miðað við síðustu spá AKKUR og P/B hlutfallið 1,10x