- AKKUR - Greining og ráðgjöf
- Posts
- Uppgjör Íslandsbanka - Umfram væntingar
Uppgjör Íslandsbanka - Umfram væntingar
AKKUR bregst við 3ja mánaða uppgjöri Íslandsbanka
VIÐBRÖGÐIN VORU SEND TIL ÁSKRIFENDA FIMMTUDAGSKVÖL OG ERU BIRT OPINBERLEGA NÚNA - NEÐANGREINT MIÐAST VIÐ ÞÆR UPPLÝSINGAR SEM LÁGU FYRIR KVÖLDIÐ 8. MAÍ 2025.
Jákvætt:
| Neikvætt:
|
Íslandsbanki birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung 2025 fyrr í dag. Niðurstaðan er töluvert umfram væntingar AKKUR og góður gangur í undirliggjandi rekstri.
Hér að neðan má sjá samantekt á uppgjöri bankans borið saman við spá AKKUR og meðaltal greiningaraðila.

Eins og sést á þessari samantekt eru hreinar vaxtatekjur umfram væntingar á meðan þóknanatekjur eru undir væntingum AKKUR. Hreinar vaxtatekjur vega það hins vegar mun meira og má því segja að kjarnarekstur bankans sé að skila tæplega 900m.kr. afkomu umfram væntingar AKKUR.
Þóknanatekjur (brúttó) voru mjög nálægt væntingum AKKUR en kostnaður var hærri. Væntanlega skýrist það að stærstu leyti af endurflokkun kostnaðar bankans sem tók gildi í síðasta uppgjöri. Munurinn á hreinum þóknanatekjum er því nánast aðeins vegna vanmats á kostnaði.
Hreinar fjármunatekjur eru vissulega undir væntingum, sem voru lágar, en AKKUR kýs að leggja ekki mikla áherslu á þennan sveiflukennda lið þar sem til lengri tíma ættu þessar sveiflur að jafnast út og skila jákvæðri afkomu.
Hrein virðisbreyting var einnig langt undir væntingum AKKUR en líkt og áður hefur komið fram er ekki reynt að spá sérstaklega fyrir um sveiflur hér og gert ráð fyrir að virðisrýrnun sé u.þ.b. 0,25% út spátímabilið á ári.
Jákvæðir punktar
Hreinar vaxtatekjur eru langt umfram væntingar og vaxtamunur hærri. Hreinar vaxtatekjur á einum ársfjórðungi hafa aldrei verið hærri og vaxtamunurinn sá mesti síðan á öðrum ársfjórðungi 2023. Markaðurinn hefur haft áhyggjur af vaxtamun og að hann muni minnka með minni verðbólgu en síðasti ársfjórðungur var mjög sterkur.
Áfram er góður gangur hjá Allianz og umfram væntingar AKKUR. Ef þessi gangur heldur áfram gæti þurft að endurskoða framtíðarspár til hækkunar.
Miðað við mat bankans á áhrifum af innleiðingu á CRR3 er umfram eigið fé um 37ma.kr. eða sem nemur tæplega 18% af markaðsvirði bankans. Bankinn er með heimild frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til að kaupa eigin bréf fyrir allt að 16ma.kr. sem er ónýtt og verður að teljast líklegt að bankinn verði duglegur að kaupa eigin bréf á næstu misserum.
Eftir að hafa náð hámarki í lok þriðja ársfjórðungs 2024 hefur verðtryggingarjöfnuður nú lækkað tvo fjórðunga í röð og nemur 127mö.kr. eða 82% af eigin fé samanborið við 215ma.kr. og 96% af eigin fé í lok þriðja ársfjórðungs. Lækkandi verðtryggingarjöfnuður mun hjálpa bankanum að stýra vaxtamun og draga úr sveiflum fram á veginn.
Neikvæðir punktar
Virkt skatthlutfall var mjög hátt á fjórðungnum og umfram háar væntingar AKKUR. Óhagstæð samsetning hagnaðar (skattalega) gerir það að verkum að skatthlutfall verður mjög hátt. AKKUR kýs hins vegar að dvelja ekki of mikið við þetta þar sem líkt og með fjármunatekjur jafnast þetta út yfir lengri tíma.
Fjármunatekjur mjög slappar og undir þegar lágum væntingum AKKUR. Hins vegar kýs AKKUR að horfa ekki of mikið á sveiflur milli fjórðunga hér þar sem þetta jafnast út yfir lengri tíma.
Verðlagning
Miðað við dagslokagengi í dag er markaðsvirði bankans 210ma. að teknu tilliti til eigin bréfa sem þýðir að hann er metinn á 8,8x hagnað síðustu tólf mánaða eða 9,1x hagnað ársins 2025 miðað við síðustu spá AKKUR og P/B hlutfallið 0,96x. Í ljósi þess að undirliggjandi rekstur var töluvert umfram væntingar á fyrsta ársfjórðungi eru miklar líkur á að spá AKKUR fyrir 2025 verði hækkuð.