- AKKUR - Greining og ráðgjöf
- Posts
- Óvissa á lánamarkaði
Óvissa á lánamarkaði
Möguleg áhrif á rekstur og virði bankanna
ÞESSI PÓSTUR VAR SENDUR Á ÁSKRIFENDUR MÁNUDAGINN 28. OKTÓBER OG ER NÚ BIRTUR OPINBERLEGA
Stutta útgáfan
Töluverð áhrif á hagnað en takmörkuð áhrif á verðmæti
Eftir niðurstöðu Hæstaréttar í Vaxtamálinu gagnvart Íslandsbanka hefur skapast töluverð óvissa á lánamarkaði þar sem bankar (og lífeyrissjóðir í einhverjum tilfellum) hafa ýmist breytt lánaframboði eða hreinlega stöðvað nýjar lánveitingar tímabundið.
Fyrir liggur að ákvörðun Hæstaréttar hefur gert það að verkum að bankarnir munu, að öllum líkindum, aðeins lána á breytilegum óverðtryggðum vöxtum með fyrirfram ákveðnu álagi ofan á stýrivexti héðan í frá.
Það þýðir einfaldlega að líklega munu kjörin sem bjóðast á breytilegum vöxtum hækka, í það minnsta til að byrja með. Þegar bankinn þarf að verðleggja vöruna sína með föstu álagi og er óheimilt að víkja frá því mun hann að öllum líkindum verðleggja inn þá áhættu. T.d. ef fjármögnunarkjör hans erlendis hækka umtalsvert af ástæðum sem hafa ekkert með íslenskt hagkerfi að gera.
Það var raunin þegar Landsbankinn tilkynnti breytingar á lánaframboði sínu, nú eru breytilegir óverðtryggðir vextir 10,0% en voru áður 9,0%. Hér er bankinn einfaldlega að verðleggja inn þá áhættu að hann verður að láta vextina fylgja stýrivöxtum í einu og öllu. Fyrir breytingar var álagið á stýrivexti 1,5% en þá gat bankinn brugðist við breytingum í ytri aðstæðum með því að breyta vöxtum en það er ekki lengur í boði.
Þegar kemur að verðtryggðum lánum hafa Arion banki og Íslandsbanki stöðvað afgreiðslu verðtryggðra lána og Landsbankinn veitir aðeins verðtryggð lán til 20 ára til fyrstu kaupenda.
Nú liggur fyrir að Vaxtamál á hendur Arion banka sem snýr að verðtryggðu láni verður tekið fyrir um miðjan nóvember og mun því niðurstaða vonandi liggja fyrir um miðjan desember.
Möguleg áhrif - Sviðsmyndir
Það er ljóst að lítið verður um ný útlán til fasteignakaup út þetta ár. Af því tilefni ákvað AKKUR að teikna upp smá sviðsmyndagreiningu og horfa til hvaða áhrif það hefði á verðmat bankanna ef útlánavöxtur verður enginn.
Horft er á þrjár sviðsmyndir;
Grunnsviðsmynd sem er núverandi spá AKKUR
Sviðsmynd þar sem útlán til heimila standa í stað út spátímann en útlánavöxtur til fyrirtækja er óbreyttur
Sviðsmynd þar sem enginn útlánavöxtur verður, hvorki til heimila né fyrirtækja
Niðurstaðan er sú að hagnaður dregst saman, lítillega til að byrja með en eykst eftir því sem líður á spátímann og árið 2028 er hagnaður um 8-13% lægri en í grunnsviðsmynd.

Hagnaður Arion banka í mismunandi sviðsmyndum

Hagnaður Íslandsbanka í mismunandi sviðsmyndum
Áhrifin á arðsemi eiginfjár eru minni og áfram er hægt að ná ásættanlegri arðsemi þar sem minni útlánavöxtur þýðir að binda þarf minna eigið fé.
Þessar sviðsmyndir hafa takmörkuð áhrif á niðurstöður verðmats þar sem minni útlánavöxtur kallar á minna eigið fé sem þýðir að hægt er að greiða meira út til hluthafa. Í þessum sviðsmyndum er horft til þess að halda eiginfjárhlutföllum þeim sömu.
Áhrifin á verðmat er lækkun um u.þ.b. 5% í tilfelli Arion banka í báðum sviðsmyndum en um 7-9% hjá Íslandsbanka enda eru vaxtatekjur stærri hluti afkomu þar og hefur þetta því hlutfallslega meiri áhrif. Það myndi auðvitað breytast með sameiningu við Skaga (VÍS) en ekki er tekið tillit til þess hér.

Arðsemi Arion banka í mismunandi sviðsmyndum

Eigið fé Arion banka í mismunandi sviðsmyndum

Arðsemi Íslandsbanka í mismunandi sviðsmyndum

Eigið fé Íslandsbanka í mismunandi sviðsmyndum