Uppgjör Icelandair - Undir væntingum

AKKUR bregst við 6 mánaða uppgjöri Icelandair

VIÐBRÖGÐIN VORU SEND TIL ÁSKRIFENDA Í KJÖLFAR UPPGJÖRS OG ERU BIRT OPINBERLEGA NÚNA - NEÐANGREINT MIÐAST VIÐ ÞÆR UPPLÝSINGAR SEM LÁGU FYRIR KVÖLDIÐ 17. JÚLÍ 2025.

Jákvætt:

  1. Sjóðstreymi sterkt

  2. Bókunarstaða næstu misseri sterkari en í fyrra

  3. Framtíðaráhrif ONE umbreytingarvegerðar aukast 

Neikvætt:

  1. Kostnaður umfram væntingar

  2. Sterkt raungengi gerir félaginu erfitt fyrir

  3. EBIT horfur fyrir 2025 undir væntingum AKKUR

Icelandair birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung 2025 fyrr í dag. Þrátt fyrir að niðurstaðan (hagnaður) sé ekki langt frá spá AKKUR er samsetningin óhagstæðari og dregin áfram af gjaldeyrisliðum í gegnum fjármunatekjur og jákvæðra tekjuskattsáhrifa. Uppgjörið er undir væntingum AKKUR og EBIT horfur fyrir 2025 einnig undir væntingum.

Hér að neðan má sjá samantekt á uppgjöri félagsin borið saman við spá AKKUR.

Eins og sést á þessari samantekt eru flutningstekjur og leigutekjur lítillega umfram væntingar á meðan aðrar rekstrartekjur eru undir væntingum. Hér má benda á að ekki var tekið nægilega mikils tillits til árstíðarsveiflu í þessum lið í afkomuspá AKKUR, fyrir árið í heild er spáin nærri lagi en þær skiptust óeðlilega milli fjórðunga í spá.

Rekstrarkostnaður var yfir væntingum, þar munaði mest um launakostnað en þar var líklega vanmat á áhrifum vegna sterkari krónu stærsti sökudólgurinn. Eldsneytiskostnaður var hins vegar töluvert undir væntingum og vegur á móti.

Eins og kom fram efst er sterkt raungengi að gera félaginu erfitt fyrir. Aukinn rekstrarkostnaður skrifast því líklega að stórum hluta á vanmati AKKUR á þessum gengisáhrifum. Félagið er jú með stóran hluta af sínum tekjum í erlendri mynt á meðan stór hluti kostnaðar, t.a.m. laun, eru í íslenskum krónum.

Jákvæðir punktar

  1. Þrátt fyrir að rekstrarhagnaður, bæði EBITDA og EBIT, breytist ekki mikil milli ára er sjóðstreymið að batna. Handbært fé frá rekstri eykst milli ára á sama tíma og fjárfestingar dragast saman.

  2. Bókunarstaða fyrir háönn sumarsins er betri en á sama tíma í fyrra. Bókunarflæðið fyrir næsta haus og vetur er hins vegar hægara og virðist sem farþegar séu farnir að bóka með skemmri fyrirvara en áður. Samdráttur er framundan í sætisframboði til og frá Íslandi sem mun styðja við bæði nýtingu og arðsemi.Framtíðaráhrif ONE umbreytingarvegferðar hafa aukist úr $70m í $90m. Þetta styður við mat AKKUR á framtíðarhorfum þó að horfur í náinni framtíð séu vissulega undir væntingum.

Neikvæðir punktar

  1. Kostnaður á flestum vígstöðum var umfram væntingar á meðan eldsneytiskostnaður var lægri. Eins og áður var komið inn á er þetta líklega að stórum hluta til komið vegna óhagstæðrar gengisþróunar.Sögulega sterkt raungengi er að gera félaginu erfitt fyrir. Á meðan þróunin breytist ekki dregur úr samkeppnishæfni félagsins á alþjóðlegum mörkuðum, ásamt öðrum útflutningsfélögum. Félagið ver sig að sjálfsögðu fyrir gengissveiflum en ókosturinn er að áhrif gjaldeyrisvarna koma ekki fram í rekstrarhagnaðinum sem getur orðið fyrir miklum áhrifum.

  2. EBIT horfur félagsins fyrir árið 2025 eru undir væntingum AKKUR. Frumskýrsla gerði ráð fyrir tæplega $24m í EBIT en horfur félagsins gera nú ráð fyrir að EBIT verði „öðru hvoru megin við núllið“. Horfurnar eru vonbrigði en skiljanlegt í ljósi þess hve mikil áhrif sterkari króna er að setja á reksturinn á sama tíma og bókunarfyrirvari styttist.

Niðurstaða

Uppgjörið var undir væntingum og horfur fyrir 2025 eru undir væntingum. Hins vegar kallar þetta ekki á miklar breytingar á afkomuspá AKKUR fyrir félagsins lengra inn í framtíðina að svo stöddu. Afkomuspá næstu ára var frekar varfærin að mati AKKUR á sama tíma og framtíðaráhrif vegna ONE umbreytingarvegferðarinnar hafa verið endurmetin til hækkunar. Því til viðbótar er samdráttur framundan í sætisframboði til og frá Íslandi sem mun styðja við nýtingu og arðsemi.

Verðlagning

Miðað við dagslokagengi í dag er markaðsvirði félagsins 53ma eða $432m. Heildarvirði félagsin er um 86ma eða $709m. Félagið er því metið á u.þ.b. 9x áætlaðan rekstrarhagnað (EBIT) ársins 2027 eða V/H margfaldara 9x fyrir sama ár.