Uppgjör Nova - Í samræmi við væntingar

AKKUR bregst við 6 mánaða uppgjöri Nova

VIÐBRÖGÐIN VORU SEND TIL ÁSKRIFENDA Í KJÖLFAR UPPGJÖRS OG ERU BIRT OPINBERLEGA NÚNA - NEÐANGREINT MIÐAST VIÐ ÞÆR UPPLÝSINGAR SEM LÁGU FYRIR KVÖLDIÐ 14. ÁGUST 2025.

Jákvætt:

  1. Tekjur umfram væntingar

  2. EBITDA umfram væntingar

  3. Sjóðstreymi sterkt

Neikvætt:

  1. EBIT og hagnaður undir væntingum

Nova birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung 2025 fyrr í dag. Uppgjörið er sterkt og í samræmi við væntingar.

Hér að neðan má sjá samantekt á uppgjöri félagsins borið saman við spá AKKUR.

Eins og sést á þessari samantekt eru bæði tekjur og EBITDA yfir væntingum á meðan EBIT og hagnaður er undir væntingum AKKUR.

Líkt og gert var ráð fyrir í spá AKKUR í Frumskýrslu um Nova er áfram sterkur tekjuvöxtur í FastNeti. Hlaupandi 12 mánaða tekjur af FastNeti eru núna 4,1ma, eða tæplega 30% af heildartekjum, og hafa þær vaxið um 125% frá árinu 2018!

Ágætis kostnaðaraðhald er í rekstrinum en annar rekstrarkostnaður eykst vissulega töluvert en EBITDA er engu að síður yfir væntingum.

Afskriftir og fjármagnsgjöld eru yfir væntingum sem gerir það að verkum að EBIT og hagnaður eru undir væntingum.

Jákvæðir punktar

  1. Töluverður tekjuvöxtur er á milli ára og eru tekjur umfram væntingar AKKUR. Hér munar mestu um tekjur af FastNeti sem aukast um 11,5% á milli ára á fjórðungnum og 10,7% sé horft á 6M. Þetta er umfram spá AKKUR sem gerði ráð fyrir 8,5% tekjuvexti fyrir FastNet á árinu í heild.

  2. EBITDA er umfram væntingar sem skýrist af hærri tekjum og lægra kostnaðarverði seldra vara fyrst og fremst. EBITDA síðustu 12 mánaða er nú komin yfir 4,3ma og því mjög líklega, að mati AKKUR, að árið endi yfir efri mörkum áætlunar félagsins sem var 4,0-4,4ma. Spá í frumskýrslu gerði ráð fyrir að árið myndi enda í 4,3mö og því mjög líklegt að árið í heild verði umfram væntingar.

  3. Sjóðstreymi batnar mikið milli ára sem stafar af rekstrarbata en einnig mun lægri veltufjárbindingar og lægri fjárfestinga. Það lá fyrir að fjárfestingar myndu líklega dragast lítillega saman eða standa í stað svo það kemur ekki á óvart. Einnig er lægri veltufjárbinding að hjálpa til en skv. uppgjörskynningu er þar um að ræða tilfallandi atburð.

Neikvæðir punktar

  1. EBIT og hagnaður voru undir væntingum sem helgast af því að afskriftir og fjármagnsgjöld voru umfram væntingar. Afskriftir síðustu 12 mánaða eru nú tæplega 2,4ma á meðan spá AKKUR fyrir árið nam 2,2mö og því mjög líklegt að það verði endurskoðað. Fjármagnsgjöldin eru sömuleiðis yfir væntingum en ekki útli fyrir að það krefjist endurskoðunar fyrir árið í heild að svo stöddu.

Niðurstaða

Sterkt uppgjör sem var í samræmi við væntingar. Það er ljóst að reksturinn er á réttri leið og í samræmi við afkomubata sem spáð var í Frumskýrslu. Líklegt að EBITDA verði umfram væntingar fyrir árið í heild á meðan EBIT og hagnaður verða líklega undir væntingum. Heildaráhrif á verðmat ættu að vera smávægileg að svo stöddu.

Verðlagning

Miðað við dagslokagengi í dag er markaðsvirði félagsins 17ma. að teknu tilliti til eigin bréfa, og heildarvirði rúmlega 28ma. EV/EBITDA miðað við síðustu spá fyrir árið er því 6,6x, EV/EBIT er 13,4x og P/E 15,9x.