- AKKUR - Greining og ráðgjöf
- Posts
- Icelandair - Farþegatölur og stutt umfjöllun
Icelandair - Farþegatölur og stutt umfjöllun
Stutt umfjöllun um Icelandair
VIÐBRÖGÐIN VORU SEND TIL ÁSKRIFENDA Í GÆRKVÖLDI OG ERU BIRT OPINBERLEGA NÚNA - NEÐANGREINT MIÐAST VIÐ ÞÆR UPPLÝSINGAR SEM LÁGU FYRIR KVÖLDIÐ 6. ÁGÚST 2025.
Icelandair birti farþegartölur fyrir júlí fyrr í dag sem má sjá hér.
Tölurnar eru í samræmi við væntingar AKKUR en í sögulegu samhengi eru farþegatölurnar sjálfar mjög góðar. Hlaupandi 12 mánaða nýtingarhlutfall hefur líklega aldrei verið betra og áfram dregur úr vægi VIA farþega þó að hlutfall þeirra síðustu 12 mánuði sé enn mjög hátt.
Vandamál félagsins þessi misserin er ekki að fylla vélarnar hjá sér og meðalverðin eru þokkalega sterk. Hins vegar eru tekjurnar, og meðalverðin, að mestu leyti í USD sem hefur veikst töluvert gagnvart íslensku krónunni sem veldur þrýsting á framlegð.
Meðalverðin (e. Yield) hækka um 3,1% milli ára en á sama tíma veikist USD um u.þ.b. 11,5% gagnvart krónunni svo að tekjur félagsins af farþegaflutningum í íslenskum krónum eru líklega 7-8% lægri.

Nýtingarhlutfall eftir mánuðum

Hlaupandi 12 mánaða nýtingarhlutfall - Punktalínan sýnir nýjasta gildi
Áhrif síðasta uppgjörs á verðmat
Eins og kom fram í viðbrögðum AKKUR við uppgjöri fyrri helmings ársins hjá Icelandair þá var uppgjörið undir væntingum. Þar kom einnig fram eftirfarandi:
Uppgjörið var undir væntingum og horfur fyrir 2025 eru undir væntingum. Hins vegar kallar þetta ekki á miklar breytingar á afkomuspá AKKUR fyrir félagsins lengra inn í framtíðina að svo stöddu. Afkomuspá næstu ára var frekar varfærin að mati AKKUR á sama tíma og framtíðaráhrif vegna ONE umbreytingarvegferðarinnar hafa verið endurmetin til hækkunar. Því til viðbótar er samdráttur framundan í sætisframboði til og frá Íslandi sem mun styðja við nýtingu og arðsemi.
Til glöggvunar þá lækkar niðurstaða verðmats í Frumskýrslu um 3,4% við það að lækka EBIT spá ársins 2025 úr $24m í $0, þ.e.a.s. markgengi fer úr 2,10kr í 2,03kr að öðru óbreyttu.
Fyrirframinnheimtar tekjur
Skiptar skoðanir eru meðal fjárfesta hvort að fyrirframinnheimtar tekjur teljist meðal skulda þegar rekstur flugfélaga er verðmetinn. Hægt er að færa rök fyrir báðum leiðum en mat AKKUR er að það sé “eðlilegra” að sleppa þeim.
Fyrirframinnheimtar tekjur eru, að mestu leyti, skuld flugfélags við viðskiptavini sína vegna flugferða sem seldar hafa verið fram í tímann. Í þessu tilfelli selur Icelandair viðskiptavinum sínum flugferðir sem viðskiptavinir eiga eftir að nýta en þurfa að greiða strax fyrir ferðina. Þetta er einfaldlega hluti af viðskiptalíkandi flugfélaga en þegar í harðbakkann slær og samdráttur verður í sölu getur þetta orsakað vandræði.
Líkt og áður sagði er hægt að færa rök fyrir bæði að telja fyrirframinnheimtar tekjur meðal skulda og að sleppa því, mat AKKUR er að eðlilegra sé að sleppa því. Ef það á að telja fyrirframinnheimtar tekjur meðal skulda er það mat AKKUR að þá ætti sömuleiðis að telja þær meðal skulda í útreikningi á vegnum fjármagnskostnaði. Þar sem fyrirframinnheimtar tekjur eru ekki lán í hefðbundnum skilningi bera þær enga vexti og myndi því teljast vaxtalaus lán.
Við gerð Frumskýrslu voru báðar leiðir skoðaðar og þar sem munur á niðurstöðum var lítill sem enginn var ákveðið að sleppa nánari umfjöllun um fyrirframinnheimtar tekjur í Frumskýrslu.
Veginn fjármagnskostnaður í Frumskýrslu var metinn sem 9.25% en hefðu fyrirframinnheimtar tekjur verið flokkaðar sem vaxtalausar skuldir hefði veginn fjármagnskostnaður lækkað í 7,80%. Niðurstaða sjóðsstreymismats í Frumskýrslu var 2,45kr en hefði verið 2,37kr ef fyrirframinnheimtar tekjur hefði verið flokkaðar meðal skulda og fjármagnskostnaður þ.a.l. lægri.
Kennitölusamanburður hefði sömuleiðis ekki verið marktækur þar sem almennt séð eru fyrirframinnheimtar tekjur ekki flokkaðar meðal vaxtaberandi skulda.
Verðmat
Að lokum vill AKKUR árétta að niðurstöður verðmats, líkt og í Frumskýrslu um Icelandair, eru einungis mat AKKUR á virði reksturs. Niðurstaðan er ekki spá um hvert gengi hlutabréfanna verður á ákveðnum tíma. Niðurstaða verðmats á Icelandair upp á 2,10kr í lok árs 2025 er því mat AKKUR hversu mikils virði reksturinn er í lok árs 2025 m.v. fyrirliggjandi forsendur en ekki spá um að gengið verði 2,10kr.
Gengi á markaði ræðst af ýmsum þáttum og alls ekkert víst að markaðurinn sé sammála forsendum eða niðurstöðum á hverjum tíma.
Áhugasamir geta nálgast Frumskýrsluna hér.